Bókmennta- og listfræðastofnun Háskóla Íslands

1.jpg

Nýjar útgáfurBókmennta- og listfræðastofnun er vettvangur rannsókna og útgáfu á sviði íslenskra bókmennta, almennrar bókmenntafræði, kvikmyndafræði, listfræði og menningarfræði. Hér fyrir neðan eru nýjustu útgáfur stofnunarinnar.

Íslensk bragfræði

í bókinni er fjallað um regluverkið sem fylgt hefur íslenskum kveðskap frá öndverðu. Þar má nefna hrynjandina eða taktinn í braglínum, bragliði eða kveður, rímið sem skreytir braginn og síðast en ekki síst stuðlasetninguna þar sem nákvæmni regluverksins nær hámarki og framstöðuhljóð orðanna leika aðalhlutverkið. Víða um Norður-Evrópu var forðum kveðið eftir þessum bragreglum en nú er það helst í íslenskum kveðskap sem þær lifa enn góðu lífi. Hinum bragfræðilegu útskýringum fylgir mikill fjöldi dæma eftir ljóðasmiði frá öllum tímum, rösklega eitt hundrað skáld og hagyrðinga, konur og karla, ung skáld og aldin, þekkt og óþekkt. Þau eru sálin í bókinni. Án þeirra væri hún ekki til.

Leikhús nútímans

Í Leikhúsi nútímans rekur Trausti Ólafsson hugmyndir og hugsjónir frumkvöðla í leikhúsi Vesturlanda allt frá miðri nítjándu öld og fram yfir aldamótin tvö þúsund. List og fagurfræði leikstjóra, leikskálda og hönnuða eru gerð skil og því lýst hvernig þróun leikhússins helst í hendur við sögu menningar og samfélags. Hér gefst lesendum þess vegna færi á því að kynna sér á heildstæðan hátt þær hugmyndir og hugsjónir sem mótað hafa leikhús samtímans. Leikhús nútímans er fyrsta rit sinnar tegundar sem skrifað er á íslensku. Í bókinni eru nær tvö hundruð myndir sem varpa ljósi á efni hennar.

Af sjónarhóli leikara

Sveinn Einarsson gefur hér lesanda innsýn í starf leikstjórans, þess listamanns sem heldur um alla þræði á leikæfingum og ber ábyrgð á listrænni útfærslu leiksýningarinnar. Þegar áhorfendum er boðið til stefnumóts við list hans er hann hins vegar ósýnilegur og mörgum getur reynst torvelt að átta sig á mikilvægi framlags hans til leiksviðslistarinnar.

Sveinn lýsir eigin sviðsetningum á nokkrum verkum, frá Yvonne Búrgúndarprinsessu í Iðnó 1968 til Cavalleria Rusticana og I Pagliacci í Gamla bíói 2008. Á þessu fjörutíu ára tímabili voru leikstjórnarverkefni Sveins afar fjölbreytt. Í bókinni má lesa um Antígónu Sófóklesar, Hamlet Shakespears, Fedru Racines og Pétur Gaut Ibsens, en öll þessi verk hefur Sveinn sviðsett í þýðingum Helga Hálfdánarsonar. Ónefnd eru íslensku leikritin, Galdra-Loftur, Útilegumennirnir og Gullna hliðið, auk leikgerðar á skáldsögu Halldós Laxness, Kristnihald undir Jökli. Þá segir Sveinn frá tveimur uppsetningum sínum á Afturgöngum Ibsens, annarri í Kaupmannahöfn en hinni hjá Leikfélagi Akureyrar, og sýningum leikhópsins Bandamanna á Amlóða sögu sem fór víða um heim.

Hef ég verið hér áður?

Steinunn Sigurðardóttir er einn eftirtektarverðasti rithöfundur þjóðarinnar, en hún hefur um árabil sent frá sér ljóðabækur og skáldsögur, auk leikverka fyrir útvarp og sjónvarp. Í þessari mikilvægu bók um skáldlist Steinunnar er athyglinni beint að ýmsum áleitnustu viðfangsefnunum í verkum hennar. Fjallað er um togstreituna í sambandi kynjana eins og hún brýst fram í tortímandi ástarsamböndum, dregin eru upp viðkvæm en um leið ógnvænleg tengsl manns og náttúru og kvenlegum reynsluheimi lýst, en hann gefur verkunum oft og tíðum aukna íróníska vídd. Skáldskapur Steinunnar er ekki aðeins kannaður í ljósi ráðandi menningarstrauma heldur er jafnframt horft til tilfinningabókmennta átjándu aldar og tregaljóðahefðar, ekki síður en ástar- og vegafrásagna.

Í hverri bók er mannsandi

Bókin Í hverri bók er mannsandi eftir Guðrúnu Ingólfsdóttur fjallar um handrit með fjölþættu efni, handritasyrpur. Þau eru frá 18. öld og segja má að einn hugur öðrum fremur móti hvert handrit. Litið er á skrifarana eða hönnuðina, þrjá karla og eina konu, sem höfunda syrpnanna - ytra útlits (t.d. skreytinga), niðurskipanar texta og efnisvals. Hingað til hefur verið litið á slíkar syrpur sem skipulagslausan samtíning en hér eru leidd rök að því að bygging syrpnanna sé markviss og sýnt hvernig þær vitna um hugarheim skapara sinna og stöðu þeirra í heiminum rétt eins og önnur höfundaverk. Ein helsta niðurstaða verksins er sú að þekkingarleit kvenna og alþýðukarla hafi verið skipulegri en talið hefur verið. 

Sæborgin

Út er komin bókin Sæborgin: Stefnumót líkama og tækni í ævintýri og veruleika. Í henni fjallar höfundurinn, Úlfhildur Dagsdóttir bókmenntafræðingur, um sæborgir (svo sem gervimenni, vélmenni, klóna) í bókmenntum og myndmáli. Jafnframt er gefið yfirlit yfir erlenda umræðu um líftækni og sæborgir og sérstök áhersla lögð á tengsl hennar við bókmenntir og afþreyingarmenningu. Líftækni er skoðuð í ljósi bókmennta og kannað hvernig orðræða skáldskapar mótar hugmyndir okkar um líftækni. Sæborgin er aðgengilegt fræðirit sem er meðal annars ætlað að kynna erlenda umræðu um líftækni fyrir íslenskum lesendum.

Að skilja undraljós
Að skilja undraljós er safn sextán greina um Þórberg Þórðarson, verk hans og hugðarefni. Greinarnar eiga flestar rætur í fyrirlestrum frá árinu 2008 þegar þess var minnst, bæði í Háskóla Íslands og á Þórbergssetri í Suðursveit, að 120 ár voru liðin frá fæðingu Þórbergs.

Þórbergi Þórðarsyni var fátt óviðkomandi og í þessu safni er horft á hann frá ýmsum sjónarhornum. Meðal efnis eru ættir hans og frændgarður, skipti hans við útgerðarmann og prest, esperantóáhugi og tengsl við erlendar framúrstefnuhreyfingar.

Rúnir - Greinasafn um skáldskap og fræðastörf Álfrúnar Gunnlaugsdóttur

Álfrún Gunnlaugsdóttir rithöfundur og prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands er einn merkasti fulltrúi módernismans í íslenskri skáldsagnagerð, en eftir hana liggja smásagnasafnið Af manna völdum, og skáldsögurnar Þel, Hringsól, Hvatt að rúnum, Yfir Ebrofljótið og Rán. Í greinasafninu Rúnum birta tíu bókmenntafræðingar rannsóknir sínar á skáldskap og fræðistörfum þessa mikilvæga samtímahöfundar.

Árni ljúflingur

Sagan af Árna yngra ljúfling

Sagan af Árna yngra ljúfling er ein fyrsta íslenska skáldsagan í nútímaskilningi. Hún hefur ekki áður verið gefin út eftir eiginhandarriti sem höfundurinn, Jón sýslumaður Espólín (1769–1836), ritaði á síðustu æviárum sínum.

Í sögunni segir frá flakkaranum Árna sem ferðast um landið, hlýðir á tal manna og skrifar upp. Sagan hefst í Vopnafirði og endar í miðju kafi á Akureyri. Lýst er sérkennum héraða og skoðunum manna á öllu milli himins og jarðar.

The Ethics of EmpireThe Ethics of Empire in the Saga of Alexander the Great
Í The Ethics of Empire er Alexanders saga, sem Brandur Jónsson ábóti og síðar Hólabiskup þýddi, borin saman við frumtextann, kvæðið Alexandreis eftir Galterus. Í bókinni er sjónum beint að áherslum og aðlögunum þýðandans, einkum í þeim köflum sem fjalla um völd og yfirráð yfir þjóðum. Þetta er áhugavert í ljósi þess að Brandur Jónsson var í Noregi 1262–1263 þegar Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd og hefur líklega þýtt söguna þá. 

 

Illa fenginn mjöðurIlla fenginn mjöður: Lesið í miðaldatexta
Illa fenginn mjöður er handbók um rannsóknir á miðaldabókmenntum handa háskólanemum og öðrum áhugamönnum um íslensk fræði. Meginmarkmið bókarinnar er að kynna aðferðir við textalestur miðaldabókmennta með dæmum af ýmsu tagi þar sem megináherslan er á greiningu textans, bæði fagurfræðilega og sögulega. Um leið og vakin athygli á ýmsum sérstækum vandamálum við rannsóknir á miðaldabókmenntum, t.d. varðandi varðveislu og menningarsögu.  

 

Óþarfa unnusturÓþarfar unnustur: og aðrar greinar um íslenskar bókmenntir
Óþarfar unnustur: og aðrar greinar um íslenskar bókmenntir Í tilefni af sjötugsafmæli Helgu Kress er hér safnað saman greinum hennar frá síðustu 10 árum eða svo. Helga er mikilvirkur fræðimaður sem skrifar um fjölbreytt efni eins og safnið ber vitni um. Verkið skiptist í þrjá hluta ásamt viðauka, í fyrsta hlutanum eru greinar um miðaldabókmenntir, þá er kafli um kvennabókmenntir og síðasti hlutinn er safn af greinum um verk Halldórs Laxness. Í viðauka má finna grein um ritun ævisögu Halldórs Laxness. Þá er ítarleg ritaskrá í bókinni.